Velkomin í þessa átjándu útgáfu Gróðurfrétta!
EFNISSKRÁ:
1. Pistill frá ritsjóra
2. Norðlæg graslendi
3. Blómakerið
Pistill frá ritsjóra
Kæru lesendur!
Velkomin til Gróðurfrétta, sem nú eru sendar út samtímis á íslensku og ensku. Ég vona að lesendur njóti efnisins og ég vil gjarnan heyra viðbrögð ykkar. Hér í Reykjavík er enn vetur, tjörnin er frosin og snævi þakin, og seint á kvöldin grillir í græn norðurljósin á vetrarhimninum. Starar, skógarþrestir, og gæsir heimsækja bæjarbúa og stórar trjágreinarnar svigna undan þungum snjóum. Sólin hækkar örlítið á lofti hvern dag. Ég vona að fréttabréfið gleðji lesendur og það sé vettvangur fyrir líflega umræðu um plöntur og græn málefni.
Norðlæg graslendi
Gróður graslendis er mjög fjölbreyttur, en yfirleitt eru grös ríkjandi. Á sumrin þekur grænt gras hlíðar og dali, árbakka, víkur og eyjar, en á veturna sjást sinustrá í snævi þöktum túnum. Graslendi er ekki einungis notað til búfjárbeitar og sláttu, heldur einnig til útiveru og íþróttaiðkana. Grösin þola vel beit og traðk búfjár og óblíð náttúruöfl eins og þurrk, flóð og frost. Vaxtarbroddur grasplöntunnar liggur nærri jörðinni, þannig að stórir grasbítar skera laufið yfirleitt í sundur fyrir ofan aðalvaxtarsvæðið sem geri plöntunni kleift að ná sér fljótt á strik.
Grös hafa granna stilka, löng og mjó græn blöð, og blómskipunin er ýmist ax eða puntur. Af innlendum grösum má nefna bugðupunt (Deschampsia flexuosa) og snarrótarpunt (Deschampsia caespitosa) sem sveigast í vindinum, fínleg língresi eins og hálíngresi (Agrostis capillaris) og týtulíngresi (Agrostis vinealis), og litfögur grös eins og rauðleitan túnvingul (Festuca richardsonii) og blágrænt vallarsveifgras (Poa pratensis). Margar plöntur í graslendi teljast ekki til grasa heldur tvíkímblaða jurta. Má þar nefna plöntur sem bera gul blóm eins og sóleyjar (Ranunculus spp.) og túnfífla (Taraxacum spp.), túnsúrur (Rumex acetosa), sem skarta rauðleitum blómklasa, og bleik blóm hrafnaklukkunnar (Cardamine pratensis). Í sendnu graslendi glittir víða í silfurlituð lauf tágamurunnar (Potentilla anserina), djúpgræn blöð og ljósar blómkörfur vallhumalsins, og stundum sníkjujurtina lokasjóð (Rhinanthus minor). Loks má nefna jurtir af ertublómaætt eins og umfeðming (Vicia cracca) og hvítsmára (Trifolium repens) sem bæta jarðveginn með hjálp gerla í rótarhnýðunum.
Graslendið er gjöfult og nytjað fyrir uppskeru, beit sauðfjár, nautgripa og hrossa, og sem grasvellir og flatir við bústaði manna. Landnýting hefur áhrif á frjósemi landsins, fjölbreytileika plantna og flókið samspil lífvera í grassverðinum og moldinni. Fjölskrúðugar fæðukeðjur stórra og smárra lífvera þrífst á gróðrinum. Jafnframt verða lífrænar leifar grasa og tvíkímblaða jurta fæða fyrir gerla, sveppi, ánamaðka og skordýralirfur. Á sumrin vex upp mergð af tvívængjum og fiðrildalirfum og verða fæða fyrir fugla, t. d. heiðlóur (Pluvialis apricaria) og stara (Sturnus vulgaris). Víða í nágrannalöndunum hörfa grasengi vegna skipulagsáforma og breyttrar landnýtingar og um leið eiga villtar plöntur og dýr sem þar lifa undir högg að sækja. Enda þótt graslendið sé oftast hálfnáttúrleg fremur en villt náttúra, þarfnast þetta vistkerfi verndar til framtíðar.
Blómakerið
Sendið okkur bréf og greinar um plöntur og græn málefni til birtingar í næsta hefti Gróðurfrétta, þið getið líka skoðað eldri hefti á netinu. Gróðurfréttir eru vettvangur fyrir umfjöllun um grasafræði og vistfræði, umhverfismál, og náttúruvernd. Hægt er að hafa tengla á ykkar vefi í fréttabréfinu eða á tenglasíðunni. Tenglarnir eru flestir tengdir líffræði og vistfræði, vistvænni og heilsutengdri ferðaþjónustu, menningu og listum, og grænum lífsstíl. Sendið okkur endilega ábendingar um efni í næsta fréttarit.
Við bjóðum upp á ferðir til að skoða gróður landsins, en ferðirnar eru einstök upplifun á náttúru landsins. Yfirleitt um að ræða létta göngu og náttúruskoðun í óspilltri náttúru, t. d., á ströndum, í hraunum, og á heiðum. Þema ferðanna er hrífandi gróðurfar, sérstæð náttúrufyrirbæri, og menning landsins. Við könnum mosaþembur, bújarðir, strandgróður, votlendi, jarðhitagróður og birkiskóga. Um leið gefst nægur tími til að upplifa andrúmsloft og sögu staðanna.
-----------------------------------------------------------------
Kær kveðja,
Soffía Arnþórsdóttir
GRÓÐURFRÉTTIR eru gefnar út af Þund, Reykjavík
7. mars, 2015 -- Gróðurfréttir, hefti #018
Fáðu nýjustu fréttir og tilboð frá Þund!
Get updates and special offers from Thund!